Föstudagur, 31. júlí 2009
Hvað er fíkniefnaakstur?
Undanfarið hefur þetta orð, fíkniefnaakstur, birst æ oftar í fjölmiðlum þegar sagt er frá tilvikum þar sem fólk keyrir undir áhrifum fíkniefna. Þetta þykir undirrituðum nokkuð einkennilegt orðaval enda merkingin í hans huga nær því að eiga við þegar keyrt er með fíkniefni. Til dæmis mætti kalla það fíkniefnaakstur þegar keyrt er með fíkniefni á milli Blönduóss og Akureyrar með skipulögðum hætti. Sambærilegt er að tala um mjólkurakstur þegar mjólk er sótt á sveitabæi og keyrt með hana til mjólkurvinnslu. Varla getur orðið mjólkurakstur átt við þegar fólk keyrir eftir að hafa drukkið mjólk.
Akstur undir áhrifum fíkniefna mætti frekar kalla vímuakstur, ef fólk þarf endilega að búa til eitt nafnorð yfir þann verknað. Sambærilegt er þegar talað er um ölvunarakstur þegar fólk keyrir drukkið. Undirritaður hefur aldrei heyrt talað um áfengisakstur um slíkan verknað. Enda á það frekar við þegar talað er um að keyra með áfengi á milli staða, t.d. frá Akureyri til Blönduóss.
HE
Fíkniefnaakstur við Blönduós | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 19. júní 2009
Að gúgla eða gúggla?
Það er óhætt að segja að sögnin gúggla sé orðin landlæg í íslenskri tungu, sé hægt að komast svo að orði. Það þarf líklega ekki að útskýra fyrir mörgum að með sögninni gúggla er átt við að fletta einhverju upp með leitarvélinni Google. Það eru fáir sem amast við orðinu. Þó reit Baldur Jónsson, málfræðingur og einn nefndarmanna í tölvuorðanefnd, grein í Morgunblaðið fyrir ekki löngu þar sem hann stingur upp á orðinu glöggva í staðinn. Ég leyfi mér að segja að sú uppástunga er í besta falli skemmtileg tilraun, en um leið misheppnuð.
En nokkuð virðist á reiki hvort fólk skrifar gúggla eða gúgla. Það eru í raun engar málsögulegar eða orðsifjalegar röksemdir fyrir hvorum rithættinum. Sögnin er aðlögun úr ensku, af sögninni google sem er dregin af heitinu Google. Kannski mætti segja að þar sem að rótarsérhljóðið í frummyndinni er langt (oo) færi betur að skrifa gúgla í íslensku (þar sem sérhljóðið ú er langt). Það er þó engin regla sem segir að svo skuli gera.
Í slíkum tilvikum, þar sem málfræðileg rök fyrir rithætti eru ekki fyrir hendi, er hefð oft látin ráða. Lítil og óformleg könnun á Facebook leiddi í ljós að rithátturinn gúggla er mun algengari. Þá má oft fá ágætis vísbendingu um tíðni og notkun orða og rithátt þeirra með því gúgla/gúggla þeim á netinu. Þar kemur í ljós að gúgla skilar 5.040 niðurstöðum á Google en gúggla skilar 6.210. Rithátturinn getur líka farið eftir framburði, hvort fólk segir gúgla með löngu ú-hljóði eða stuttu (gúggla).
Sá sem hér skrifar hefur vanið sig á að rita gúggla svo, með tveimur géum.
Annað vafamál sem á reiki er um sögnina gúggla er hvort hún taki með sér þolfall eða þágufall, þ.e. hvort maður gúggli eitthvað eða einhverju á netinu. Aftur eru engar málsögulegar eða málfræðilegar röksemdir fyrir hvorri beygingu. Sama litla óformlega könnunin á Facebook sýndi að fleiri gúggla með þolfalli. Þó hafa heyrst rök að eðlilegra væri að gúggla stýrði þágufalli því hugsunin sé sú sama og ef fólk flettir einhverju upp.
Sá sem þetta ritar hefur vanið sig á að gúggla einhverju með þágufalli.
Fróðlegt væri að sjá hvað lesendum þessarar síðu finnst um sögnina gúggla, rithátt hennar og beygingu.
HEKínverska Google fordæmt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.6.2009 kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 16. apríl 2009
Spilliforrit og vefsjá
Eins og getið er hér í síðustu færslu er umræða um internetið enn á hálfgerðu byrjunarstigi í íslensku. Mörg hugtök hafa náð að festa sig í sessi en svo eru mörg tilvik þar sem hugtakanotkun er á reiki, stundum er því sleppt að þýða hugtök og stundum eru margar þýðingar í gangi fyrir eitt hugtak.
Hér er rætt um spilliforrit. Það er ágætis þýðing á enska hugtakinu malware eða malicious software. Spilliforrit er nokkurs konar safnheiti fyrir ýmsan hugbúnað eða kóða sem ætlað er að valda skaða eða safna upplýsingum á tölvum internetnotenda, í slæmum tilgangi. Þar í hópi eru tölvuvírusar, ormar, Trójuhestar og annar óskapnaður. Hiklaust má mæla með orðinu spilliforrit í þessum tilgangi.
Í þessari frétt,og raunar tilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar, er einnig að finna orðið vefsjá. Þar er átt við það sem á ensku er kallað browser eða web browser og núorðið líklega mun þekktara sem vafri í íslensku. Í lok síðustu aldar var í raun nokkuð tekist á um þessi tvö orð, vefsjá og vafra. Sitt sýndist hverjum en undirritaður taldi að á síðustu árum hefði vafri náð, kannski á eigin spýtur, að vinna sér lýðhylli og væri orðið mun almennara í notkun. Engu að síður má sjá orðið vefsjá notað víða á netsíðum, einkum hjá opinberum stofnunum ýmsum. Einnig virðist Tölvuorðasafnið mæla með orðinu vefsjá. (Að vísu má deila umfjölmargar af þeim þýðingum sem Tölvuorðasafnið mælir með og verður án efa rætt um það nánar á þessu bloggi.)
Hins vegar virðist vefsjá hafa fest sig í sessi sem heiti á kortum og kortaupplýsingum á netinu (sem þá má væntanlega skoða með hjálp vafra). Dæmi um slíkt má sjá hér, hér og hér.
Hér verður mælt með vafra fyrir web browser en að vefsjá sé frekar notað fyrir græjur sem birta kortaupplýsingar á netinu.
HE
Vara við spilliforriti á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.5.2009 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 3. apríl 2009
Umfjöllun um internetið á íslensku
Íslenskan er greinilega enn að fóta sig á internetinu, því enn virðist vera nauðsynlegt að setja ensk orð í sviga á eftir íslenskum orðum og kynna lesandanum hina svokölluðu eða svonefndu tækni, eins og sést í þessari frétt:
Samkvæmt tölum frá sænsku Hagstofunni hafa um 8% allra Svía dreift skrám með svokallaðri deilitækni (e. peer-to-peer sharing).
Skráarskiptinetsíðan The Pirate Bay, sem veitir aðgang að svonefndum torrents eða skráarskiptahugbúnaði sem gerir notendum kleift að deila með sér stórum skrám með skjótum hætti, er staðsett í Svíþjóð.
En hvað getum við kallað hina svonefndu torrenta? Er kannski í lagi að tala einfaldlega um torrenta? Það er líklega full mikil sletta fyrir marga, og þótt tæknin byggi á forritinu BitTorrent og vísi þar með í vöruheiti, sem væru rök fyrir því að nota enska orðið, er það nú notað sem samheiti fyrir þessa tegund skráa, enda oftast skrifað með litlum staf.
Straumur, flaumur og flóð eru á meðal orðabókarskilgreininga fyrir torrent. Straumskrár hljómar ekki svo illa og nær merkingunni að vissu leyti; vísar í óheft gagnastreymi á milli notenda, en líkist ef til vill orði yfir straumspilunarskrá, þ.e. skrá með margmiðlunarefni sem er straumspiluð af netinu. Það hljómar aftur á móti kjánalega að tala um flaum- eða flóðskrár, það myndi aldrei festa sig í sessi. Svo er einfaldlega hægt að tala um torrenta sem deiliskrár.
Veit einhver um aðrar þýðingar á torrent?
ÞE
Ný löggjöf dró úr netumferð í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.4.2009 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. mars 2009
Staðgenglar í vef- og hugbúnaðarþýðingum
Vef- og hugbúnaðarþýðingar eru frábrugðnar flestum þýðingum, því þær krefjast mikils tæknilegs undirbúnings og staðfæringar. Ef vara er þýdd yfir á mörg tungumál þarf að undirbúa hana á viðeigandi hátt, til dæmis með því að innleiða Unicode-staðalinn. Þegar þessum undirbúningi er lokið er hægt að staðfæra fyrir hvert tungumál eða svæði. Til dæmis þarf að huga að mismunandi bókhaldsreglum í hverju landi fyrir sig þegar bókhaldshugbúnaður er þýddur, en þá gæti einnig þurft að endurskrifa eða fjarlægja texta eða eiginleika hugbúnaðarins.
Þessi undirbúningur er gríðarlega mikilvægur til að staðfærð útgáfa vörunnar verði vel heppnuð og sjálf þýðingin gangi hnökralaust fyrir sig. Meðal þess sem oft má huga betur að er notkun staðgengla (e. placeholders), sem valda gjarnan þýðendum vandræðum. Staðgengill er gildi eða tákn í texta sem stendur fyrir annað raunverulegt gildi sem er óþekkt eða ótiltækt. Tökum dæmi:
Results for an event in %s.
Hér gæti %s verið staðgengill fyrir borg eða land sem er sett inn sjálfvirkt í samræmi við val notanda. Til dæmis gæti verið hægt að leita að viðburði í Reykjavík eða á Akureyri. Þá lendir þýðandinn í vandræðum vegna mismunandi forsetninga og neyðist til að gera málamiðlun í þýðingunni:
Niðurstöður fyrir viðburð í/á %s.
Oftar en ekki eru staðgenglar notaðir til að birta sama streng á mörgum stöðum innan forrits eða vefsvæðis. Til dæmis gæti strengurinn Reykjavík verið notaður bæði sem fyrirsögn og í setningunni hér fyrir ofan. Dæmi um þetta má sjá í Google leit á íslensku.
Eins og sést á eftirfarandi mynd virðist staðgengill vera notaður fyrir orðið Web, sem er þýtt sem Vefnum. Sami strengur er notaður á þremur stöðum:
Þarna hefur þýðandinn neyðst til að velja skásta kostinn. Á ensku útgáfu vefsíðunnar er þetta að sjálfsögðu enginn vandi, þar sem Web er viðeigandi á öllum stöðum. Þetta er dæmi um þá aðlögun sem þarf að huga vel að við þýðingar.
Staðgenglar skýra að mörgu leyti þann þýðingarbrag sem stundum er á hugbúnaði á íslensku, þar sem þetta fyrirkomulag er óhentugt fyrir íslenska beygingarkerfið. En til að íslenskan dafni og skjóti rótum í tölvuheiminum þarf að huga vel að þessum málum til að notendur sjái kost í því að nota íslenskar útgáfur hugbúnaðar. Því er mikilvægt að fyrirtæki sem hyggjast þýða vefsíður eða hugbúnað hugi vel að þessum málum.
ÞE
Bloggar | Breytt 27.3.2009 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 20. mars 2009
Frumkvöðull og athafnamaður
Bandalag þýðenda og túlka stóð fyrir athyglisverðum hádegisfyrirlestri þriðjudaginn 3. mars síðastliðinn, sem bar yfirskriftina Frumkvöðlar og forystumenn. Uppfinningar og athafnakonur. Hugtök og þýðingar í atvinnulífi og nýsköpun. Þar héldu erindi Elinóra Inga Sigurðardóttir, athafnakona, Sigrún Þorgeirsdóttir, málfræðingur og ritstjóri Hugtakasafns utanríkisráðuneytisins og Þröstur Olaf Sigurjónsson, lektor í HR. Allir fyrirlestrarnir voru áhugaverðir. Sigrún lýsti starfinu að baki Hugtakasafnsins, sem er löngu orðið ómissandi hjálpartæki þýðenda, og Þór lýsti reynslusögu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga af útgáfu nýrrar viðskiptaorðabókar, sem enn sér ekki fyrir endann á.
En fyrirlestur Elinóru var kannski forvitnilegastur fyrir okkur þýðinganördana. Þar fjallaði hún nokkuð um hugtakanotkun í tengslum við viðskipti, sérstaklega notkun á hugtakinu frumkvöðull og hvernig það er ranglega notað (að mati Elinóru) í umfjöllunum um viðskipti. Hún benti þar á að frumkvöðull væri of oft notað sem þýðing á enska hugtakinu entrepreneur, sem betur færi á að þýða sem athafnamaður. Röksemdafærsla hennar var eitthvað á þessa leið (eftir minni):
Í ensku er eftirfarandi hugtök að finna (skilgreiningar fengnar af snara.is):
entrepreneur: maður sem á eigin áhættu fæst við að stofna og reka fyrirtæki; maður sem stundar sjálfstæðan atvinnurekstur. þ.e. athafnamaður
innovator: maður sem kemur með nýjung eða nýbreytni. þ.e. frumkvöðull
innovation: uppfinning
inventor: uppfinningamaður
Elinóra telur að betur fari á því að þýða innovator sem frumkvöðull og entrepreneur sem athafnamaður þar sem entrepreneur er ekki endilega einhver sem markaðsetur nýjung eða uppfinningu, heldur sér viðskiptatækifæri og grípur þau (auðvitað fer þetta oft saman). Hvað varðar hin hugtökin benti hún á að uppfinning (e. innovation) yrði ekki að nýsköpun fyrr en hún kæmi á almennan markað, sem væri í verkahring frumkvöðla. Þetta voru áhugaverðar vangaveltur og ágætt að hafa þær í huga við þýðingar á viðskiptatextum, enda er tilhneiging í viðskiptaheiminum að gera meira úr hlutum en efni standa til, og orðaval er eftir því.
GE
Bloggar | Breytt 27.3.2009 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)