Frumkvöðull og athafnamaður

Bandalag þýðenda og túlka stóð fyrir athyglisverðum hádegisfyrirlestri þriðjudaginn 3. mars síðastliðinn, sem bar yfirskriftina „Frumkvöðlar og forystumenn. Uppfinningar og athafnakonur“. Hugtök og þýðingar í atvinnulífi og nýsköpun. Þar héldu erindi Elinóra Inga Sigurðardóttir, athafnakona, Sigrún Þorgeirsdóttir, málfræðingur og ritstjóri Hugtakasafns utanríkisráðuneytisins og Þröstur Olaf Sigurjónsson, lektor í HR. Allir fyrirlestrarnir voru áhugaverðir. Sigrún lýsti starfinu að baki Hugtakasafnsins, sem er löngu orðið ómissandi hjálpartæki þýðenda, og Þór lýsti reynslusögu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga af útgáfu nýrrar viðskiptaorðabókar, sem enn sér ekki fyrir endann á.

En fyrirlestur Elinóru var kannski forvitnilegastur fyrir okkur þýðinganördana. Þar fjallaði hún nokkuð um hugtakanotkun í tengslum við viðskipti, sérstaklega notkun á hugtakinu „frumkvöðull“ og hvernig það er ranglega notað (að mati Elinóru) í umfjöllunum um viðskipti. Hún benti þar á að frumkvöðull væri of oft notað sem þýðing á enska hugtakinu „entrepreneur“, sem betur færi á að þýða sem „athafnamaður“. Röksemdafærsla hennar var eitthvað á þessa leið (eftir minni):

Í ensku er eftirfarandi hugtök að finna (skilgreiningar fengnar af snara.is):

entrepreneur: „maður sem á eigin áhættu fæst við að stofna og reka fyrirtæki; maður sem stundar sjálfstæðan atvinnurekstur.“ þ.e. athafnamaður

innovator: „maður sem kemur með nýjung eða nýbreytni.“ þ.e. frumkvöðull

innovation: „uppfinning“

inventor: „uppfinningamaður“

Elinóra telur að betur fari á því að þýða innovator sem „frumkvöðull“ og entrepreneur sem „athafnamaður“ þar sem „entrepreneur“ er ekki endilega einhver sem markaðsetur nýjung eða uppfinningu, heldur sér viðskiptatækifæri og grípur þau (auðvitað fer þetta oft saman). Hvað varðar hin hugtökin benti hún á að uppfinning (e. innovation) yrði ekki að nýsköpun fyrr en hún kæmi á almennan markað, sem væri í verkahring frumkvöðla. Þetta voru áhugaverðar vangaveltur og ágætt að hafa þær í huga við þýðingar á viðskiptatextum, enda er tilhneiging í viðskiptaheiminum að gera meira úr hlutum en efni standa til, og orðaval er eftir því.

GE


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband