Staðgenglar í vef- og hugbúnaðarþýðingum

Vef- og hugbúnaðarþýðingar eru frábrugðnar flestum þýðingum, því þær krefjast mikils tæknilegs undirbúnings og staðfæringar. Ef vara er þýdd yfir á mörg tungumál þarf að undirbúa hana á viðeigandi hátt, til dæmis með því að innleiða Unicode-staðalinn. Þegar þessum undirbúningi er lokið er hægt að staðfæra fyrir hvert tungumál eða svæði. Til dæmis þarf að huga að mismunandi bókhaldsreglum í hverju landi fyrir sig þegar bókhaldshugbúnaður er þýddur, en þá gæti einnig þurft að endurskrifa eða fjarlægja texta eða eiginleika hugbúnaðarins.

Þessi undirbúningur er gríðarlega mikilvægur til að staðfærð útgáfa vörunnar verði vel heppnuð og sjálf þýðingin gangi hnökralaust fyrir sig. Meðal þess sem oft má huga betur að er notkun staðgengla (e. placeholders), sem valda gjarnan þýðendum vandræðum. Staðgengill er gildi eða tákn í texta sem stendur fyrir annað raunverulegt gildi sem er óþekkt eða ótiltækt. Tökum dæmi:

„Results for an event in %s.“

Hér gæti %s verið staðgengill fyrir borg eða land sem er sett inn sjálfvirkt í samræmi við val notanda. Til dæmis gæti verið hægt að leita að viðburði í Reykjavík eða á Akureyri. Þá lendir þýðandinn í vandræðum vegna mismunandi forsetninga og neyðist til að gera málamiðlun í þýðingunni:

„Niðurstöður fyrir viðburð í/á %s“.

Oftar en ekki eru staðgenglar notaðir til að birta sama streng á mörgum stöðum innan forrits eða vefsvæðis. Til dæmis gæti strengurinn „Reykjavík“ verið notaður bæði sem fyrirsögn og í setningunni hér fyrir ofan. Dæmi um þetta má sjá í Google leit á íslensku.

Eins og sést á eftirfarandi mynd virðist staðgengill vera notaður fyrir orðið „Web“, sem er þýtt sem „Vefnum“. Sami strengur er notaður á þremur stöðum:

 

google_815550.jpg

 

Þarna hefur þýðandinn neyðst til að velja skásta kostinn. Á ensku útgáfu vefsíðunnar er þetta að sjálfsögðu enginn vandi, þar sem Web er viðeigandi á öllum stöðum. Þetta er dæmi um þá aðlögun sem þarf að huga vel að við þýðingar.

Staðgenglar skýra að mörgu leyti þann þýðingarbrag sem stundum er á hugbúnaði á íslensku, þar sem þetta fyrirkomulag er óhentugt fyrir íslenska beygingarkerfið. En til að íslenskan dafni og skjóti rótum í tölvuheiminum þarf að huga vel að þessum málum til að notendur sjái kost í því að nota íslenskar útgáfur hugbúnaðar. Því er mikilvægt að fyrirtæki sem hyggjast þýða vefsíður eða hugbúnað hugi vel að þessum málum.

ÞE

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Oftast er hægt að komast hjá svona klaufagangi. Þegar þýtt er hefur þýðandinn eðlilega fullan aðgang að öllum textanum og hefur því fullt frelsi til að umorða og endurraða. Það er jú meiningin sem þarf að skila sér frekar en bein orðauppröðun. Í þessu dæmi hefði verið ofur einfalt að nota orðið "Vefir" í staðinn og umorða "Leita á vefnum" sem "Hvað geyma vefir" eða "Vefir innihalda". Aðrar útfærslur eru einnig mögulegar. Til dæmis "Síður", og sömu uppsetningu og fyrr.

Það sem ég meina er að þó setningaskipan sé önnur er þetta bara spurning um hugarflug og málvald þýðanda.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 16.4.2009 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband