Föstudagur, 19. júní 2009
Að gúgla eða gúggla?
Það er óhætt að segja að sögnin gúggla sé orðin landlæg í íslenskri tungu, sé hægt að komast svo að orði. Það þarf líklega ekki að útskýra fyrir mörgum að með sögninni gúggla er átt við að fletta einhverju upp með leitarvélinni Google. Það eru fáir sem amast við orðinu. Þó reit Baldur Jónsson, málfræðingur og einn nefndarmanna í tölvuorðanefnd, grein í Morgunblaðið fyrir ekki löngu þar sem hann stingur upp á orðinu glöggva í staðinn. Ég leyfi mér að segja að sú uppástunga er í besta falli skemmtileg tilraun, en um leið misheppnuð.
En nokkuð virðist á reiki hvort fólk skrifar gúggla eða gúgla. Það eru í raun engar málsögulegar eða orðsifjalegar röksemdir fyrir hvorum rithættinum. Sögnin er aðlögun úr ensku, af sögninni google sem er dregin af heitinu Google. Kannski mætti segja að þar sem að rótarsérhljóðið í frummyndinni er langt (oo) færi betur að skrifa gúgla í íslensku (þar sem sérhljóðið ú er langt). Það er þó engin regla sem segir að svo skuli gera.
Í slíkum tilvikum, þar sem málfræðileg rök fyrir rithætti eru ekki fyrir hendi, er hefð oft látin ráða. Lítil og óformleg könnun á Facebook leiddi í ljós að rithátturinn gúggla er mun algengari. Þá má oft fá ágætis vísbendingu um tíðni og notkun orða og rithátt þeirra með því gúgla/gúggla þeim á netinu. Þar kemur í ljós að gúgla skilar 5.040 niðurstöðum á Google en gúggla skilar 6.210. Rithátturinn getur líka farið eftir framburði, hvort fólk segir gúgla með löngu ú-hljóði eða stuttu (gúggla).
Sá sem hér skrifar hefur vanið sig á að rita gúggla svo, með tveimur géum.
Annað vafamál sem á reiki er um sögnina gúggla er hvort hún taki með sér þolfall eða þágufall, þ.e. hvort maður gúggli eitthvað eða einhverju á netinu. Aftur eru engar málsögulegar eða málfræðilegar röksemdir fyrir hvorri beygingu. Sama litla óformlega könnunin á Facebook sýndi að fleiri gúggla með þolfalli. Þó hafa heyrst rök að eðlilegra væri að gúggla stýrði þágufalli því hugsunin sé sú sama og ef fólk flettir einhverju upp.
Sá sem þetta ritar hefur vanið sig á að gúggla einhverju með þágufalli.
Fróðlegt væri að sjá hvað lesendum þessarar síðu finnst um sögnina gúggla, rithátt hennar og beygingu.
HEKínverska Google fordæmt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skemmtileg vangavelta. Framburður gæti ráðið rithættinum gúggla gæti verið sunnlenskur framburður en gúgla norðlenskur!?
Skallagrímur Kveldúlfson gúglaði hest á meðan Úlfljótur gúgglaði Guðmundi. Ég kann betur við þolfallið
Ólafur Eiríksson, 19.6.2009 kl. 13:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.