Föstudagur, 31. júlí 2009
Hvað er fíkniefnaakstur?
Undanfarið hefur þetta orð, fíkniefnaakstur, birst æ oftar í fjölmiðlum þegar sagt er frá tilvikum þar sem fólk keyrir undir áhrifum fíkniefna. Þetta þykir undirrituðum nokkuð einkennilegt orðaval enda merkingin í hans huga nær því að eiga við þegar keyrt er með fíkniefni. Til dæmis mætti kalla það fíkniefnaakstur þegar keyrt er með fíkniefni á milli Blönduóss og Akureyrar með skipulögðum hætti. Sambærilegt er að tala um mjólkurakstur þegar mjólk er sótt á sveitabæi og keyrt með hana til mjólkurvinnslu. Varla getur orðið mjólkurakstur átt við þegar fólk keyrir eftir að hafa drukkið mjólk.
Akstur undir áhrifum fíkniefna mætti frekar kalla vímuakstur, ef fólk þarf endilega að búa til eitt nafnorð yfir þann verknað. Sambærilegt er þegar talað er um ölvunarakstur þegar fólk keyrir drukkið. Undirritaður hefur aldrei heyrt talað um áfengisakstur um slíkan verknað. Enda á það frekar við þegar talað er um að keyra með áfengi á milli staða, t.d. frá Akureyri til Blönduóss.
HE
Fíkniefnaakstur við Blönduós | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hjá Blönduóslöggunni skiptir orðaval, beygingar og málfræði ekki máli. Það sleppur ENGINN!
Guðmundur St Ragnarsson, 31.7.2009 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.